Sport

Bolton í þriðja sætið

Liverpool tapaði fyrsta leik sínum á tímabilinu í gær þegar liðið sótti Bolton heim. Kevin Davies skoraði eina mark leiksins í fyrri hálfleik og skaut liði sínu upp í þriðja sæti deildarinnar. "Við getum ekki beðið um meira en þetta," sagði Davies, sem skoraði markið eftir góðan undirbúning Henriks Pedersen. "Á síðustu tímabilum höfum við átt erfitt uppdráttar í byrjun en núna byrjum við frábærlega. Við eigum möguleika á að fara skrefinu lengra. Við lögðum okkur fram og áttum stigin skilin." Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Bolton, var að vonum ánægður með sigurinn. "Þetta var stórkostlegur sigur. Liverpool hefur eytt miklu fé og liðið hefur mikla hæfileika. Það er stórkostlegt að sigra svo gott lið." Rafael Benitez, knattspyrnustjóri Liverpool, var að vonum ósáttur með leikinn og viðurkenndi að það gæti tekið þrjá til fjóra mánuði að púsla liðinu saman. "Við þurfum að halda vinnu okkar áfram og eftir þrjá til fjóra mánuði verðum við komnir með sterkt lið." Spánverjarnir Xabi Alonso og Luis Garcia þreyttu frumraun sína með Bítlaborgarliðinu í gær og skoraði Garcia mark sem virtist löglegt en var dæmt af. "Ég er búinn að sjá sjónvarpsmyndir og þetta er löglegt mark. En það er lítið hægt að gera við því núna," sagði Benitez.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×