Innlent

Endurráðinn í lögregluna

Lögreglumaður, sem sýknaður var í Hæstarétti í síðasta mánuði fyrir ólögmæta handtöku, ranga skýrslugjöf og brot í opinberu starfi, hefur verið endurráðinn hjá lögreglunni. Þórir Marinó Sigurðsson lögreglumaður var dæmdur í 2ja mánaða fangelsi og í 2ja ára skilorð í héraðdsómi. Honum var ásamt öðrum laganna verði gefið að sök að hafa framkvæmt ólögmæta handtöku við veitingastaðinn Amsterdam í Tryggvagötu og fyrir ranga skýrslugjöf. Í desember í fyrra vék ríkislögreglustjóri Þóri Marinó, úr starfi vegna sakfellingarinnar. Dómnum var síðan áfrýjað til Hæstaréttar sem sýknaði Þóri Marinó á þeim forsendum að handtakan hafi verið réttlætanleg. Hann mætir því til vinnu eftir helgi og mun starfa í sömu deild innan lögreglunnar og hann var áður en til sakfellingar í héraðsdómi kom. Í samtali við fréttastofu í dag sagði Þórir Marinó að endurráðningin hefði ekki komið á óvart eftir sýknudóm Hæstaréttar. Samstarfsmaður Þóris, sem einnig áfrýjaði máli sínu til Hæstaréttar, hlaut tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot í starfi og hefur ekki verið endurráðinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×