Erlent

Bush og Kerry hnífjafnir

Bush Bandaríkjaforseti hefur étið upp forskotið sem John Kerry var með í skoðanakönnunum. Fylgi frambjóðendanna tveggja er nú hnífjafnt. Fram eftir sumri naut John Kerry forskots á Bush í könnunum, bæði hvað almennar vinsældir snerti og svo í nokkrum lykilmálaflokkum. En skjótt skipast veður í lofti. Bush forseti hefur nú náð forskoti á ný hvað varðar stríðið gegn hryðjuverkum, framgang mála í Írak, og svo í efnahagsmálum. Hann er einnig talinn heiðarlegri og trúverðugri en Kerry. Kerry hefur að sama skapi lækkað í áliti hjá kjósendum; áhugi á framboði hans hefur minnkað um 16 prósent og vinsældir hans hafa lækkað um átta prósent. Fylgi forsetaframbjóðendanna er hnífjafnt í könnunum, nú þegar tveir mánuðir eru til kosninga. Samkvæmt nýrri könnun Washington Post og fréttastofu ABC njóta bæði Bush og Kerry 48 prósenta fylgis. Bush er þó ekki í sérstaklega góðum málum þrátt fyrir þessi tíðindi. 52 prósent eru ósátt við frammistöðu hans í Hvíta húsinu, 54 prósent ósátt við gang mála í Bandaríkjunum og 46 prósent eru á því að þau séu verr sett nú en þegar Bush tók við embætti. Demókratar voru með skýringar á reiðum höndum í morgun: þeir segja ófrægingarherferð fyrrverandi Víetnamhermanna á hendur Kerry hafa valdið skaða, og að ólympíuleikarnir í Aþenu hafi beint athygli almennings frá Kerry, stríðinu í Írak og bágu efnahagsástandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×