Innlent

Verðhækkun út úr kortinu

Það eru sennilega engar forsendur fyrir hækkun raforkuverðs um áramótin sem Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja hafa boðað, að mati Neytendasamtakanna. Talið er að hækkunin verði um tíu prósent og hafa forsvarsmenn fyrirtækjanna sagt að hækkunin sé til komin vegna nýrra raforkulaga. Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, segist vilja vita hvort raunveruleg þörf sé á hækkuninni. "Ég tel engar forsendur vera fyrir svo mikilli hækkun og ég óttast að þeim sé einungis ætlað að auka arðsemi orkufyrirtækjanna." Jóhannes hefur sent Friðriki Sophussyni, forstjóra Landsvirkjunar, bréf og óskað eftir upplýsingum um það hvort uppi séu áform um verðbreytingar hjá Landsvirkjun um áramótin, en Landsvirkjun selur Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja raforku. Ef svo er hefur Jóhannes óskað eftir rökstuðningi fyrir hækkuninni og upplýsingum um hver hún verður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×