Innlent

Austurbyggð vaknar

Það er til marks um uppganginn í Austurbyggð að framkvæmdir við nýja götu, Gilsholt, á Fáskrúðsfirði eru vel á veg komnar. Tólf íbúðir munu rísa við götuna, átta einbýli og tvö parhús. Grunnur fyrsta hússins hefur þegar verið tekinn og viðbúið er að önnur hús rísi skjótt, enda talsverð eftirspurn eftir lóðum í sveitarfélaginu. Nýbyggingar hafa verið fátíðar á Fáskrúðsfirði, eitt hús var byggt í fyrra en þá var áratugur liðinn frá því síðast var byggt. Steinþór Pétursson sveitarstjóri horfir björtum augum til framtíðar enda góðir tímar í vændum. "Það lítur allt vel út," segir hann og þakkar stöðuna væntanlegu álveri á Reyðarfirði og göngunum milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar. "Hér ríkir mikill spenningur vegna ganganna enda stytta þau vegalengdina milli fjarða umtalsvert." Verklok eru ráðgerð í september á næsta ári en þar sem framkvæmdir hafa gengið vel og eru á undan áætlun gæla menn við að hægt verði að hleypa um þau umferð í sumarbyrjun. "Það er töluvert um að menn fari á milli staða til að sækja vinnu og þetta mun vitaskuld nýtast þeim vel." Í dag eru liðlega 50 kílómetrar á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar en með göngunum styttist leiðin í átján kílómetra. Hins vegar eru 26 kílómetrar á milli þéttbýliskjarnanna tveggja í Austurbyggð, Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar, og ekki á dagskrá að tengja þá með göngum. Samtals búa um 860 í sveitarfélaginu, 600 á Fáskrúðsfirði og 260 á Stöðvarfirði. Í dag liggur þjóðvegur eitt eftir sunnanverðum Austfjörðum, upp Breiðdalsheiði og þaðan inn á Hérað. Sveitarstjórn Austurbyggðar vill að fjarðaleiðin, í gegnum göngin og upp Fagradalinn, verði þjóðvegur eitt og óskaði eftir því formlega við samgönguráðuneytið. Steinþór segir að erindinu hafi verið tekið kurteisislega. "Það var þakkað fyrir erindið og sagt að málið yrði skoðað svo við bíðum bara og sjáum." Eins og gengur hefur þessi málaleitan hlotið misjafnar undirtektir eystra enda margir sem vilja halda í núverandi skipulag. Í haust bárust fréttir af því að kaupmaðurinn á Stöðvarfirði hefði brugðið búi og illa horfði með aðdrætti heimamanna. Hægt er að fá helstu nauðsynjar í sjoppu í bænum en íbúar þurfa að leita lengra eftir öðru. Á Fáskrúðsfirði er ágæt verslun, að sögn sveitarstjórans. Atvinnulíf í Austurbyggð er að mestu bundið við sjávarútveg. Loðnuvinnslan er stærsti vinnuveitandinn á Fáskrúðsfirði og Samherji á Stöðvarfirði. Steinþór sér ekki fram á að það muni breytast á næstunni en bendir þó á að rekstur lítilla fyrirtækja og iðnfyrirtækja í minni kantinum kunni að vera hagstæður. "Hér er mjög góð hafnaraðstaða og kjörland fyrir hafnsækna iðnstarfsemi," segir Steinþór Pétursson, sveitarstjóri Austurbyggðar, sem hefur búið a Fáskrúðsfirði í tíu ár en er Eskfirðingur að upplagi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×