Erlent

Vongóðir um árangur

Vonir eru bundnar við að samkomulag náist milli tveggja stærstu stjórnmálaflokka Norður-Írlands á samningafundi í næstu viku um að mynda nýja heimastjórn. Slíkt hefur reynst þeim um megn frá því flokkar harðlínumanna kaþólikka og mótmælenda urðu tveir stærstu flokkar landsins í þingkosningum í nóvember í fyrra. "Ég trúi því að tækifæri sé fyrir hendi til að ná samkomulagi til frambúðar svo við getum einbeitt okkur að efnahags- og félagsmálum," sagði Paul Murphy, Norður-Írlandsmálaráðherra bresku stjórnarinnar, sem segir viðræðurnar í næstu viku úrslitastund fyrir friðarferlið á Norður-Írlandi. Peter Robinson, varaformaður DUP flokks mótmælenda, var bjartsýnn á samkomulag og sagðist ekki sjá fyrir sér að Írski lýðveldisherinn, IRA, myndi nokkurn tíma aftur hefja víðtækar árásir eins og þær sem kostuðu þúsundir manna lífið. Óþekktur maður skaut um þrjátíu skotum úr hríðskotariffli á lögreglustöð í Londonderry á Norður-Írlandi í gær. Talið er að hann sé úr hópi ósáttra IRA-manna sem vilja koma í veg fyrir samninga við mótmælendur og Breta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×