Erlent

Blessun eða bölvun?

Svo virðist sem náttúruauðlindir færi þjóðum meira böl en blessun. Bent hefur verið á að ríkjum sem auðug eru af góðmálmum eða olíu vegni oft illa í efnahagslegu tilliti og sé þar að auki mun hættara við átökum en þeim ríkjum sem fáar auðlindir hafa. Deilur um yfirráð yfir náttúruauðlindum hafa verið rót allflestra stríðsátaka síðari ára. Demantar voru ein höfuðástæða borgarastyrjaldarinnar í Sierra Leone, Írak réðst á sínum tíma inn í Kuveit vegna olíuhagsmuna og uppreisnarmenn sem berjast gegn nígerískum stjórnvöldum þessa dagana segjast ætla ná olíulindum landsins undir sig. Á það hefur einnig verið bent að ríkjum sem náttúran hefur gætt auðlindum vegni verr efnahagslega en þeim sem litlar auðlindir hafa, þjóðarframleiðsla þeirra er lítil og flestir íbúanna snauðir. Þannig býr Japan ekki yfir neinum sérstökum náttúruauðæfum en er engu að síður í hópi ríkustu þjóða heims. Flest ríki Afríku búa við hins vegar við sára fátækt þrátt fyrir gnægð auðlinda. Sjálfsagt hefur sá aðstöðumunur sem þegar er á stöðu ríkra og fátækra þjóða hér talsvert að segja en hagfræðingar hafa jafnframt tiltekið nokkur atriði sem benda til þess að sjálfar náttúruauðlindirnar séu orsökin. Til dæmis gera hinar öruggu auðlindatekjur það að verkum að áhrifamenn reyna frekar að sölsa undir sig stærri hluta kökunnar í stað þess að reyna að stækka hana. Oft leiðir til átaka af togstreitunni sem skapast við þetta. Miklar útflutningstekjur af góðmálmum og olíu hafa það í för með sér að gjaldmiðill viðkomandi ríkis styrkist svo mikið að aðrar útflutningsgreinar eiga oft mjög erfitt uppdráttar. Afleiðing af þessu er atvinnuleysi og almenn fátækt, enda skapast fá störf við úrvinnslu auðlindanna. Á meðan verður rík forréttindastétt enn auðugri. Sem betur fer eru ekki öll ríki sem ráða yfir náttúruauðlindum dæmd til örbirgðar og átaka. Lýðræðislegir stjórnarhættir og opið stjórnkerfi skilja hér gjarnan á milli feigs og ófeigs. Dæmi um þetta er Afríkuríkið Botswana sem er afar auðugt af demöntum og hefur búið við um 8% hagvöxt í áratugi. Þar er lýðræði fast í sessi og stöðugleiki ríkir þótt stór hluti þjóðarinnar sé sýktur af alnæmi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×