Erlent

Rússar staðfesta Kyotosáttmálann

Rússar hafa ákveðið að staðfesta Kyoto-sáttmálann um að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þar með aukast líkurnar á því að sáttmálinn frá 1997 taki gildi en til þess þurfa minnst 55 ríki sem bera ábyrgð á a.m.k. 55 prósentum af útblæstri gróðurhúsalofttegunda að staðfesta sáttmálann. Ríkin sem staðfesta sáttmálann skuldbinda sig til þess að útblástur gróðurhúsalofttegunda verði ekki meiri árið 2012 en hann var árið 1990. Með því á að sporna gegn hlýnun jarðar. Lengi hefur legið ljóst fyrir að sáttmálinn tekur ekki gildi án staðfestingar Rússa. Ástæðan er sú að bæði bandarísk og kínversk stjórnvöld þvertaka fyrir að staðfesta sáttmálann. Þess vegna hefur Evrópusambandið þrýst mjög á Rússa að staðfesta sáttmálann. Pútín hét því í maí að flýta fyrir því að Rússar staðfestu Kyoto-sáttmálann. Það gerði hann gegn því að fá stuðning Evrópusambandsins við inngöngu Rússlands í Alþjóðaviðskiptastofnunina. Skilja mátti á rússneskum ráðamönnum í gær að þeir væru ekki alls kostar sáttir við að staðfesta sáttmálann. "Þetta er ákvörðun sem var tekin vegna þrýstings og við erum ekki sáttir við að taka," sagði Andrei Illarionov, efnahagsráðgjafi Vladimírs Pútín Rússlandsforseta, sem hefur verið framarlega í hópi rússneskra andstæðinga Kyoto-sáttmálans. Útblástur gróðurhúsalofttegunda frá Rússlandi er nú þriðjungi minni en hann var árið 1990. Ástæðan er að hluta til sú að mengandi stóriðja sovéttímans hefur vikið fyrir umhverfisvænni tæknibúnaði og að hluta vegna þess að mörg iðnfyrirtæki hafa hætt starfsemi. Nú er hins vegar útlit fyrir að útblásturinn aukist samfara uppsveiflu í rússnesku efnahagslífi. Því eru margir rússneskir ráðamenn andvígir því að sáttmálinn verði staðfestur þar sem þeir telja að hann dragi úr möguleikum Rússa á að byggja upp efnahag sinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×