Sport

Þarf að spila sinn besta leik

Kylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson er í 30.-40. sæti fyrir síðasta daginn á inntökumóti fyrir evrópsku mótaröðina sem fram fer á Spáni en hann spilaði fimmta hringinn á einu höggi yfir pari í gær. Verður hann aldeilis að spýta í hanskann en aðeins 35 efstu menn eftir lokahringinn í dag vinna fullan þátttökurétt á Evrópumótaröðinni á næsta ári. Gengi Birgis hefur verið upp og niður þá fimm daga sem mótið hefur staðið yfir og er hann fimmtán höggum á eftir þeim Francois Delamonte frá Frakklandi og Simon Wakefield frá Englandi, en þeir eru efstir fyrir lokadaginn á samtals níu höggum undir pari. Stóð hann sig bærilega eftir fyrstu tvo hringina en átti stórleik þriðja daginn og var meðal allra efstu keppenda eftir þann dag. Í fyrradag lék hann hins vegar dapurlega og náði ekki að bæta fyrir það í gær. Meðan árangur Birgis verður að teljast mjög góður á íslenskan mælikvarða þarf hann engu að síður að standa sig vel í dag ætli hann sér að vera í hópi 35 efstu manna og upplifa þar með draum sinn um þátttöku á fremstu mótaröð kylfinga í Evrópu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×