Innlent

Íslenskar hrefnur á Kanarí

Íslensku hrefnurnar eru ekkert frábrugðnar íslenska mannfólkinu að því leyti að þær kunna að meta ylinn á Kanaríeyjum um jólin, líkt og mannfólkið. Nýverið barst sending um gervitungl frá einni af sjö hrefnum sem senditæki var skotið í á Faxaflóa síðsumars og var hún þá stödd í Kanarístraumnum, djúpt suðvestur af Kanaríeyjum. Þar með er hún búin að synda u.þ.b. 3700 kílómetra á tveimur og hálfum mánuði. Áður hefur heyrst í þremur hrefnum sem héldu í þessa stefnu fyrr í haust en þetta er í fyrsta sinn sem heyrist frá þessari. Gísli Víkingsson hjá Hafrannsóknastofnun segir að menn bíði nú spenntir eftir frekari sendingum því nú þegar er vitað meira um vetrarferðir hrefnunnar en nokkru sinni fyrr. Hún er eins konar „farhvalur“ hér við land - kemur á vorin og fer á haustin eftir að hafa étið sig feita og bústna fyrir veturinn. Þá kemur kall náttúrunnar og hún brunar suður um höf til æxlunar en ekki er enn vitað um æxlunarstöðvar hennar. Verði heppnin hins vegar með kann það að skýrast í vetur, og líka hvaða leið hún kemur til baka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×