Erlent

Tímasprengja orsakavaldurinn?

Tímasprengja kann að vera ástæða þess að íbúð í fjölbýlishúsi í Stokkhólmi sprakk í gærmorgun. Maður sem stal verðmætum bókum af konunglega bókasafninu í Stokkhólmi bjó í íbúðinni. Sænska lögreglan telur hugsanlegt að maðurinn hafi með þessum hætti reynt að fela slóð sína en vitað er að hann stað verðmætum miðaldahandritum úr konunglegu sænsku bókhlöðunni. Honum var sleppt úr gæsluvarðhaldi á föstudaginn var. Engar vísbendingar hafa borist um hvar maðurinn er niður kominn. Lögreglan vill þó ekki ótiloka aðrar orsakir, til að mynda að einhver annar hafi komið fyrir sprengju og að maðurinn liggi látinn í rústum íbúðarinnar, eða að gassprenging hafi orðið. Líkleitarhundur sem fór inn í húsið í gær fann eitthvað, en þar sem hætta er talin á að húsið hrynji var snarlega hætt við frekari leit og tæknimenn lögreglu hafa ekki ennþá rannsakað vettvanginn af þessum sökum. Skemmdirnar á húsinu eru mun meiri en í fyrstu var talið og er nú unnið að því að tryggja öryggi þeirra sem þurfa að komast inn til rannsóknar.    



Fleiri fréttir

Sjá meira


×