Erlent

Samkomulag á síðustu stundu

Það þurfti fimm tilraunir en á síðustu stundu náðist loks samkomulag um hvernig kveðið skyldi á um völd Íraksstjórnar og samskipti hennar við fjölþjóðlega herliðið sem verður áfram í Írak eftir að hernámi þess lýkur formlega um næstu mánaðamót. Deilum um það hversu miklu bráðabirgðastjórnin mun ráða um hernaðaraðgerðir í Írak lauk með því að Bandaríkjamenn og Bretar samþykktu þá breytingu á ályktunartillögu sinni að kveða á um öryggissamstarf Íraka og fjölþjóðahersins. Sú breyting gengur mun skemmra en krafa Frakka, Þjóðverja og fleiri ríkja um að Írakar fengju neitunarvald á meiriháttar hernaðaraðgerðir fjölþjóðaherliðsins. Þess í stað heita Bandaríkjamenn og Bretar því að hafa samráð við Íraka um öryggisaðgerðir. Ályktunin var tekin fyrir á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í gær og var búist við að hún yrði samþykkt samhljóða en fundinum var ekki lokið þegar blaðið fór í prentun. Fyrr í gær sagði George W. Bush Bandaríkjaforseti að samhljóða samþykkt sýndi heiminum að ríkin sem eiga sæti í því ætluðu sér að "vinna saman að því að tryggja að Írak sé frjálst, friðsamlegt og lýðræðislegt". Utanríkisráðherra Frakklands, Michel Barnier, sagði Frakka hafa viljað sjá að skýrar væri kveðið á um samskipti íraskra stjórnvalda og fjölþjóðahersins en að margar umbætur hefðu verið gerðar á ályktuninni frá því hún var upphaflega lögð fram. Því gætu Frakkar sætt sig við hana. Hoshyar Zebari, utanríkisráðherra Íraks, fagnaði því að samþykkt áætlunarinnar myndi veita bráðabirgðastjórn landsins það alþjóðlega lögmæti sem hún þarfnaðist til að vinna sér traust írösku þjóðarinnar og nágrannaríkja. "Þýðing þessarar samþykktar fyrir okkur Íraka er sú að með henni hverfur hugmyndin um hernám, sem ég verð að segja að hafi verið meginástæðan fyrir mörgum af þeim erfiðleikum sem við höfum gengið í gegnum frá frelsun landsins," sagði hann. Samþykkt ályktunarinnar þýðir þó ekki að vandamálum Íraka sé lokið. Allt að ár getur liðið þar til fullgild stjórnvöld, kosin á grundvelli nýrrar stjórnarskrár, tekur við völdum. Þá hefur ekkert lát orðið á ofbeldi í landinu nema síður sé. Bardagar og hryðjuverkaárásir hafa aukist eftir því sem styst hefur í valdaafsalið og verður eitt stærsta verkefni Íraka á næstunni að kveða vígamenn í kútinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×