Innlent

Mismunun trúfélaga leyfileg

Hrópleg mismunun og ranglæti er milli trúfélaga, segir Hjörtur Magni Jóhannsson, prestur í Fríkirkjunni í Reykjavík. Hjörtur biður um jafnræði milli þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga. Endurskoða þurfi lög sem gildi um kirkjuna. Hvorki sé verið að biðja um forréttindi til handa Fríkirkjunni né að hún verði ríkiskirkja. "Ég tel að það sé ókristilegt að menn loki augunum fyrir ranglætinu. Kærleikurinn og réttlætiskenndin eru grunnþræðir í kristinni boðun og kristinni trú. Ef umgjörð kirkjunnar er ekki trúverðug og ekki kristileg er ég ansi hræddur um að allt innra starf missi svolítið vægi," segir Hjörtur. Halldór Reynisson, verkefnisstjóri fræðslusviðs þjóðkirkjunnar, segir málflutning Hjartar ómálefnalegan, nú sem fyrr. "Það virðist vera meginósk Fríkirkjuprestsins að Fríkrikjan geti sótt í svokallaðan jöfnunarsjóð þjóðkirkjunnar. Um þann sjóð gilda hins vegar lög sem koma í veg fyrir að það sé hægt. Meðal annars vegna þess að meðlimir í Fríkirkunni greiða ekki í hann, sem meðlimir þjóðkirkjunnar gera aftur á móti." Halldór segir þjóðkirkjuna hafa viljað að söfnuður Fríkirkjunnar í Reykjavík sæti við sama borð og þjóðkirkjusöfnuðir. "Má þar benda á að biskup Íslands hefur varpað þeirri hugmynd fram að lögum um þennan sjóð sé breytt en hlaut takmarkaðar undirtektir hjá löggjafanum." Nefna megi að á kirkjuþingi fyrir þremur árum hafi komið fram tillaga um að fríkirkjur hefðu sambærilegan aðgang að jöfnunasjóði og söfnuðir þjóðkirkjunnar. "Þessari hugmynd hefur séra Hjörtur Magni alfarið hafnað." Halldór segir þjóðkirkjuna reiðubúna að stuðla að því að lyktir finnist í málinu þannig að sátt náist: "Það snýr þó fyrst og fremst að ríkisvaldinu en ekki þjóðkirkjunni." Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu fengust þau svör að mismunun trúfélaga væri ekki óleyfileg samkvæmt stjórnarskránni. Að öðru leyti fengust engin svör



Fleiri fréttir

Sjá meira


×