Innlent

Rannsókn á andláti eldri borgara

Heilbrigðisráðherra hefur óskað eftir því að Landlæknir kanni aðdraganda þess að maður lést eftir byltu á Hrafnistu í Reykjavík. Aðstandendur mannsins hyggjast fara fram á lögreglurannsókn. Rætt var við aðstandenda mannsins á morgunvaktinni í Ríkisútvarpinu í morgun. Þar kom fram að níu klukkutímar liðu frá því maðurinn féll í gólfið í borðsal heimilisins þar til hann var fluttur á sjúkrahús. Þar kom í ljós að hann var höfuðkúpubrotinn og að blætt hafði inn á heila hans og hann orðinn lamaður í helmingi líkamans. Hann lést sex dögum síðar án þess að koma til meðvitundar. Sigurbjörn Víðir Eggertsson aðstoðaryfirlögregluþjónn sagðist í samtali við fréttastofu í dag hafa heyrt af þessu og hafa átt von á kærunni í nokkurn tíma. Þegar þar að kæmi myndi málið verða rannsakað á hefðbundinn hátt.  Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra segist hafa hringt í Landlækni strax og hann heyrði af málinu í morgun og beðið hann að vinna fyrir sig skýrslu um málið því þjónusta á öldrunarheimilum heyri undir Landlæknisembættið. Að öðru leyti vill hann ekki tjá sig um málið fyrr en hann fær umbeðna skýrslu í hendur. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×