Erlent

Mijailovic úrskurðaður geðsjúkur

Mijailo Mijailovic, morðingi Önnu Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar, var í morgun úrskurðaður geðsjúkur af yfirréttardómara í Stokkhólmi en hópur geðlækna hefur haft Mijailovic til meðferðar undanfarnar vikur. Þetta þýðir að hann verður vistaður á geðsjúkrahúsi, í stað fangelsis, þar sem hann mun gangast undir meðferð. Annar hópur geðlækna hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að Mijailovic væri ekki veikur á geði en hann myrti Önnu Lindh í verslunarmiðstöð í Stokkhólmi í september á síðasta ári. Í dómnum frá því í morgun segir að Mijailovic sé skaddaður einstaklingur með alvarlegar geðtruflanir og því þurfi hann á sjúkrahúsvist að halda. Beiðni verjanda Mijailovic um að breyta dómnum yfir honum úr morði yfir í manndráp af gáleysi var hins vegar hafnað þar sem sýnt þótti að fyrirætlan hans hafi klárlega verið sú að drepa Lindh. Eigi að síður þykir niðurstaðan mikill sigur fyrir verjanda Mijailovic. Möguleikinn á að málinu verði skotið til Hæstaréttar er enn fyrir hendi þar sem dómsstigin í Svíþjóð eru þrjú og verður að teljast líklegt að sú verði raunin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×