Sport

Chelsea rúllaði yfir Charlton

Eiður Smári Guðjohnsen skoraði fyrir Chelsea sem tók Charlton í bakaríið 4-0 yfir í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Eiður skoraði markið á 59. mínútu og lagði fyrsta markið upp fyrir Damien Duff á 5. mínútu. John Terry skoraði tvisvar fyrir Chelsea sem er nú með 5 stiga forystu á toppi deildarinnar eða 38 stig en Arsenal er með 33 stig og á leik til góða gegn Liverpool á morgun sunnudag. Hermann Hreiðarsson kenndi sér meins fyrir leikinn og byrjaði á varamannabekknum en Eyjapeyjinn öflugi kom inn á sem varamaður í síðari hálfleik og átti fljótlega gott marktækifæri. Man Utd vann öruggan 0-3 útisigur á W.B.A. og skoraði Paul Scholes tvisvar, á 53. og 80. mínútum og Nistelrooy á 72. mínútu. Bolton tapaði óvænt á heimavelli gegn Portsmouth, 0-1, og skoraði Arjan De Zeeuw  markið á 45. mínútu. Birmingham og Norwich gerðu 1-1 jafntefli og Southampton og Crystal Palace skildu einnig jöfn, 2-2. Man City  tekur á móti Aston Villa kl. 17.15. Af öðrum Íslendingum er það að frétta að í Championship deildinni var Jóhannes Karl Guðjónsson í banni vegna 5 gulra spjalda hjá Leicester sem vann Plymoth 2-1, Ívar Ingimarsson lék að venju allan leikinn með Reading sem gerði jafntefli við topplið Wigan, 1-1. Heiðar Helguson og Brynjar Björn Gunnarsson léku báðir allan leikinn með Watford sem tapaði fyrir West Ham 3-2. Brynjar Björn kom Watford yfir strax á 5. mínútu sem komst í 2-0 áður en heimamenn  áttu góða endurkomu og svöruðu með þremur mörkum. Þá kom Þórður Guðjónsson inn á sem varamaður á 46. mínútu hjá Bochum sem vann Nurnberg 3-1 í þýsku úrvalsdeildinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×