Sport

Rautt spjald eftir 15 sekúndur

Sá fáheyrði atburður átti sér stað í mexíkósku bikarkeppninni í knattspyrnu á fimmtudagskvöld að leikmaður afrekaði að vera rekinn af velli aðeins 15 sekúndum eftir að hann kom inn á sem varamaður. Þessi ákafi knattspyrnumaður kemur frá Úrugvæ og heitir Walter Guglielmone en honum var skipt inn á hjá liðinu Pachuca Apertura fyrir félaga sinn Sergio Santana á 79. mínútu í útileik gegn Monterrey. Hann hefði kannski átt að hita aðeins betur upp á hliðarlínunni fyrir skiptinguna því hans fyrstu hreyfingar inn á vellinum voru að fara seint í tæklingu sem felldi niður sóknarmann mótherjanna. Dómarinn sá sig knúinn til að lyfta rauða spjaldinu á einum mesta mettíma í sögu knattspyrnunnar. Af öðrum leikmönnum í Mexíkó er það að frétta að liðið Guadalajara Chivas missti leikmanninn Ramon Ramirez af velli í viðbótartíma eða 15 mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður. Þetta er Mexíkó í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×