Erlent

47 létust í bílsprengingu

47 fórust og 114 særðust þegar mjög öflug bílsprengja sprakk skammt frá aðalstöðvum lögreglunnar í Bagdad í morgun. Þetta er mannskæðasta árás í hálft ár í Írak. Fjöldi fólks var á markaðnum auk þess sem löng röð umsækjenda um störf var við lögreglustöðina þegar sprengjan sprakk. Lík fallinna og líkamsbútar lágu eins og hráviði í kringum þriggja metra djúpan gýg sem myndaðist við sprenginguna. Hermt er að starfsfólk hafi þurft vatnsslöngur til að spúla blóð af veggjum og göngum sjúkrahúsanna í grennd. Síðdegis sendu samtök Abu-Musabs al-Zarqawis, leiðtoga al-Qaeda í Írak, frá sér yfirlýsingu þar sem gengist var við hryðjuverkinu. Þar sagði að um sjálfsmorðsárás hefði verið að ræða. Hópurinn lýsti einnig drápinu á tólf lögreglumönnum í borginni Bakúba á hendur sér, en þeir féllu þegar byssumenn gerðu skotárás á smárútu sem lögreglumennirnir voru í. Bandaríkjamenn hafa lagt tuttugu og fimm milljónir dollara til höfuðs Zarqawis, sam sagður er helsti leiðtogi skæruliða í landinu. Árásirnar í dag fylgja í kjölfar blóðugs sunnudags, en í gær féllu hundrað og tíu í árásum víðsvegar í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×