Erlent

Heimsókn í skugga hótana

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, kom í gær til Tyrklands þar sem hann ætlar að taka þátt í leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins, sem hefst á morgun. Bush notar þetta tækifæri til þess að treysta tengslin milli Bandaríkjanna og Tyrklands, sem hefur stutt aðgerðir Bandaríkjanna í Írak. Hann hét því meðal annars að gera sitt til þess að Tyrkland hljóti aðild að Evrópusambandinu og bar mikið lof á Tyrkland fyrir lýðræðislega stjórnahætti. "Ég tel að Evrópusambandið eigi að gefa ykkur dagsetningu fyrir aðild að Evrópusambandinu," sagði hann. Fjölmenn mótmæli gegn Bush í Istanbúl vörpuðu þó skugga á heimsóknina, og sama má segja um hótanir frá samtökum herskárra múslima sem rændu þremur tyrkneskum verkamönnum skömmu áður en Bush kom til Tyrklands. Mannræningjarnir hótuðu því að hálshöggva verkamennina innan 72 tíma ef tyrknesk fyrirtæki hætta ekki stuðningi við herlið Bandaríkjamanna í Írak. Tyrknesk stjórnvöld sögðu þó ekki koma til greina að láta undan neinum kröfum frá hryðjuverkamönnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×