Innlent

Ungbarnasund styrkir börnin

Ungbarnasund styrkir börnin og eflir skynfæri þeirra og jafnvægi, segir Snorri Magnússon sem kennt hefur ungbarnasund í fjórtán ár. Barnalæknar hér á landi telja óvarlegt að fullyrða að ungbarnasund skaði ónæmiskerfi barnanna, eins og gert er í sænskri rannsókn. Samkvæmt niðurstöðu nýlegrar rannsóknar vísindamanna við háskólann í Umeo í Svíþjóð eru börn sem eru mikið í sundi líklegri en önnur börn til að fá astma, og er sérstaklega varað við ungbarnasundi þar sem klórinn geti skaðað ónæmiskerfi barnanna. Sænskir læknar, sem hafa kynnt sér niðurstöðurnar, telja þessar fullyrðingar fráleitar og hvetja foreldra til að halda áfram að fara með börnin í ungbarnasund. Barnalæknar hér á landi telja einnig mikilvægt að stíga varlega til jarðar í þessum efnum. Klór geti verið ertandi fyrir suma sjúklinga, en það sé einnig þekkt að börn með astma þoli einmitt sund betur en aðra áreynslu. Í ungbarnasundi hér á landi mæta börnin 8-9 sinnum í mánuði, þau yngstu um 3ja mánaða gömul. Snorri segir lækna og hjúkrunarfræðinga sjá styrktarmun á börnum sem stunda ungbarnasund og þeirra sem ekki gera það. Snorri kveðst einnig örva skynfæri barna í sundinu, þ.á m. jafnvægisskynið sem skipti miklu máli upp á alla hreyfifærni. Hann segir alveg af og frá að einhver merkjanlegur munur sé á heilsufari barna í þá veru að þau sem stundi sundið séu verr á sig komin.    



Fleiri fréttir

Sjá meira


×