Sport

Sex stiga forskot Chelsea

Stórlið Chelsea lék sér að liði Norwich í ensku úrvalsdeildinni í gær og vann góðan 4-0 sigur. Chelsea mun því í fyrsta sinn í sögu félagins sitja á toppi deildarinnar um jólavertíðina og hefur skapað sér þægilegt forskot á helstu andstæðinga sína. Arsenal getur þó klórað í bakkann en til þess þurfa þeir sigur í dag gegn Portsmouth. Arjen Robben átti enn einn stórleikinn fyrir þá bláklæddu. Hann skoraði þriðja mark liðsins og lagði upp annað sem Frank Lampard skoraði en það var jafnframt 50. úrvalsdeildarmark hans. Hefðu mörkin nokkuð auðveldlega getað verið fleiri enda var lið Norwich yfirspilað á öllum vígstöðvum á vellinum. Jermain Defoe sýndi Sven-Göran Eriksson, landsliðsþjálfara Englands, hvers megnugur hann er með því að sökkva liði Southampton með þrennu. Keane og Kanoute bættu við mörkum í stórsigri liðsins 5-1 á heillum horfnu suðurstrandarliði Southampton. Birmingham vann einnig stóran og mikilvægan 4-0 sigur á West Brom en Everton, sem komið hefur geysilega á óvart í vetur, gerði markalaust jafntefli við Blackburn. Þrátt fyrir mótspyrnu frá leikmönnum Palace gegn Manchester United endaði leikurinn með öruggum 5-2 sigri rauðu djöflanna. Tveir leikir fara fram í dag, þegar Portsmouth tekur á móti Arsenal og Liverpool tekur á móti Newcastle.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×