Innlent

Hjón spara 40 þúsund ári

Hjón með meðaltekjur í Reykjavík spara sér fjörutíu þúsund króna útsvarsgreiðslur á ári með því að flytja lögheimili sitt yfir á Seltjarnarnes eða í Garðabæ. Þeir Reykvíkingar sem vilja flýja skattana gera þó enn betur með því að flytja á Hvalfjarðarströnd en þannig má lækka útsvarið um 120 þúsund krónur á ári. Reykjavíkurborg, stærsta sveitarfélag landsins, mun frá áramótum leggja hámarksútsvar á þegna sína en slíkt hefur aðeins gerst einu sinni áður frá því núverandi skattkerfi var tekið upp, árið 2002. Þetta verður einnig í annað sinn sem útsvar í Reykjavík verður yfir meðalútsvari á landinu sem þýðir að við skattauppgjör munu íbúar Reykjavíkur ekki fá endurgreiðsu útsvars frá skattinum, eins og oftast hefur verið, heldur fá þeir bakreikning. Útsvarið í Reykjavík verður á næsta ári 13,03% en Kópavogur og Hafnarfjörður völdu einnig hæsta mögulega útsvar. Tvö sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Garðabær og Seltjarnarnes, verða hins vegar með útsvar í 12,46%. Þetta þýðir það að það getur verið nokkur munur á því hversu háa skatta nágrannar á höfuðborgarsvæðinu eru að greiða. Það getur munað tugum þúsunda á skattgreiðslum þeirra sem búa í blokk sem tilheyrir Seltjarnarnesi eða blokk handan götunnar sem tilheyrir Reykjavík. Nærri lætur að meðalheildartekjur hjóna séu nú um 550 þúsund krónur á mánuði. Í Reykjavík verður útsvar af slíkum tekjum 71.665 krónur á mánuði en í Garðabæ og Seltjarnarnesi 68.530 krónur á mánuði. Þarna munar yfir þrjú þúsund krónum á, eða 37.620 krónum á ári. En það væri hægt að lækka skatta enn meira með því að flytja í eitthvert þeirra fimm sveitarfélaga sem leggja á lágmarksútsvar, eins og Skilmannahrepp. Þannig gætu hjón í Reykjavík á meðallaunum lækkað útsvarið um tæpar tíu þúsund krónur á mánuði eða nærri 120 þúsund krónur á ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×