Innlent

Hækka um þrjú prósent

Ákveðið hefur verið að hækka atvinnuleysisbætur um áramótin ásamt hámarksábyrgð úr Ábyrgðarsjóði launa, fæðingarstyrk og lágmarksgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Atvinnuleysisbætur hækka um 3 prósent frá næstu áramótum og verða hámarksbæturnar þá 4.219 krónur á dag. Hámarksábyrgð úr Ábyrgðasjóði launa hækkar um 4 prósent frá sama tíma og verður hámarksábyrgð á kröfum launamanna um vinnulaun fyrir síðustu þrjá starfsmánuði þeirra sem og kröfur um bætur vegna launamissis vegna slita á ráðningarsamningi 270 þúsund krónur á mánuði í þrjá mánuði. Hámarksábyrgð á kröfum um orlofslaun verður 432 þúsund krónur. Fæðingarstyrkur og foreldraorlof hækkar um 3 prósent frá áramótum. Lágmarksgreiðsla í fæðingarorlofi foreldris í 25-40 prósenta starfi verður þá 67.184 krónur á mánuði og greiðsla til foreldris í 50-100 prósenta starfi verður minnst 93.113 krónur á mánuði. Fæðingarstyrkur til foreldra utan vinnumarkaðar verður 41.621 króna og 93.113 krónur til foreldra í námi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×