Innlent

Hundrað snúa ekki afturúr jólafríi

Um það bil hundrað portúgalskir verkamenn frá Kárahnjúkum, úr 250 manna hópi Impregilo sem sendur var heim í jólafrí í fyrradag, snúa ekki aftur til starfa við virkjanasvæðið. Oddur Friðriksson, aðaltrúnaðarmaður starfsmanna, segir málum þannig háttað að samningar þeirra sem ekki eiga afturkvæmt við starfsleigufyrirtæki séu útrunnir og því ekki hægt að halda uppi neinum kröfum um að þeir fái vinnu sína aftur. "Annað sem hangir á spýtunni er fyrirætlun Impregilo um að bæta við fleiri kínverskum verkamönnum, en það er alfarið háð stjórnvaldsákvörðun Vinnumálastofnunar hvort það verður heimilað," sagði hann. Þrálátur orðrómur er í gangi á Kárahnjúkum um að kínversku verkamennirnir séu á umtalsvert lægri launum en aðrir, en svo mun ekki vera. "Ég hef heyrt þessar sögur, en gögnin sem ég hef undir höndum og fæ að sjá sýna ekki annað en að verið sé að uppfylla virkjanasamninginn," sagði Oddur og bætti við að Kínverjarnir staðfesti það líka sjálfir hvaða kjör þeir búi við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×