Innlent

Úkraínumanni vísað úr landi

Nýkvæntum 23 ára gömlum Úkraínumanni var vísað úr landi í lok nóvember þar sem hann hafði dvalið ólöglega í landinu um hríð. Maðurinn hafði sótt um makaleyfi í maí síðastliðnum, skömmu eftir að hann kvæntist íslenskri konu. Útlendingastofnun synjaði manninum um leyfið eftir að hann hafði ekki lagt fram umbeðin gögn. Hildur Dungal, forstöðumaður stjórnsýslusviðs Útlendingastofnunar, segir að maðurinn hafi komið til landsins haustið 2003. Þá hafi hann fengið námsmannaleyfi á grundvelli þess að hann hafi ætlað að stunda nám í Háskóla Íslands. Það leyfi hafi síðan runnið út síðasta vetur þar sem hann hafi ekki lengur uppfyllt skilyrðin fyrir því. Í framhaldinu hafi maðurinn sótt um makaleyfi. "Honum var synjað um leyfið á grundvelli þess að hann var ekki orðinn eldri en 24 ára eins og kveðið er á um í lögum," segir Hildur. "Synjunin var kærð en dómsmálaráðuneytið staðfesti synjunina. Eftir það fóru hjónin fram á að við myndum endurskoða málið. Til þess að gera það þurftum við að fá upplýsingar eða gögn um eitthvað nýtt sem studdi mál hjónanna.Við gáfum þeim færi á að leggja fram ný gögn en þau gerðu það ekki. Á endanum gátum við ekki beðið lengur og urðum því að vísa manninum úr landi því hann hafði verið svo lengi hér án leyfa. Forsendan fyrir brottvísun hans úr landinu var því ólögleg dvöl hans í landinu." Hildur segir að þó einhverjum sé synjað um makaleyfi þýði það ekki að viðkomandi geti ekki sótt um annars konar leyfi. Maðurinn hefði því getað sótt um framlengingu á námsmannaleyfi eða dvalar- og atvinnuleyfi hefði hann viljað vera hér áfram. Honum hafi verið bent á þann möguleika en hann hefði ekki nýtt hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×