Innlent

Vegaframkvæmdir á Vesturlandsvegi

Framkvæmdir við tvöföldun akreina á Vesturlandsvegi, frá Víkurvegi í Grafarvogi að Skarhólabraut í Mosfellsbæ, standa yfir. Verklok eru áætluð í október á næsta ári. Hafliði Jónsson, verkefnastjóri á suðvestursvæði hjá Vegagerð ríkisins, segir Jarðvélar vinna verkið. Fyrirtækið hafi átt lægsta boð, 576 milljónir króna. Jóhann Bergmann, deildarstjóri framkvæmda á norðvestursvæði, segir framkvæmdirnar ganga ágætlega: "Hins vegar erum við á eftir áætlun með að hleypa umferðinni á nýja veginn til bráðabirgða. Það orsakast af magnaukningu í jarðvinnu en er ekki til neinna vansa og háir verkinu ekki í heild." Hafliði segir tvö hringtorg verða á leiðinni, annað við Úlfarsfellsveg og hitt við Korpúlfsstaðaveg. Ekki verði miklar tafir á umferð en hún verði leidd um hjáleiðir: "Næsta sumar hefjast framkvæmdir við að byggja nýjar brýr yfir Úlfarsá. Við það verða þrengingar og tafir á umferð þar."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×