Innlent

Gerði grein fyrir áformum í gær

Davíð Oddsson utanríkisráðherra gerði bandaríska sendiheranum hér á landi grein fyrir þeim áformum að veita Bobby Fischer landvistarleyfi hér á landi, á fundi í gær. Fundurinn var lögnu ákveðinn og ekki af þessu tilefni, en Davíð notaði tækifærið til að greina frá þessu á fundinum. Engin viðbrögð voru af hálfu sendiherrans, samkvæmt heimildum og ekki var samið um eitt né neitt á fundinum, en Bandaríkjamenn og Íslendingar hafa með sér samningu um gangkvæmt framsal sakamanna. Þórður Ægir Óskarsson sendiherra í Tokyo fór snemma í morgun í japanska utanríkisráðuneytið og tilkynnti þar um þessa ákvörðun íslenskra stjórnvalda. Hann segist hafa afhent japönskum stjórnvöldum ákvörðun íslenskra stjórnvalda, en engin viðbrögð hafi verið þar á þessu stigi. Þá segist Þórður hafa rætt við Fischer sjálfan í gegnum síma og gert honum grein fyrir ákvörðuninni og hann hafi þakkað fyrir sig og tekið mjög vel í boðið. Þórður segir að ef til þess kæmi að japönsk stjórnvöld féllust á að hleypa Fischer til Íslands, yrði hann fyrst að fella niður áfrýjunarmál fyrir japönskum rétti þar sem hann óskar þess meðal annars að fá stöðu sem flóttamaður í Japan. Að sögn Þórðar Ægis hafa margir alþjóðlegir og japanskir fjölmiðlar spurst fyrir um málið hjá sendiráðinu og hefur það vakið mikla athygli um allan heim, til að mynda á fréttastöðvunum CNN og BBC. Fischer óskaði eftir hæli hér á landi í bréfi til Davíðs Oddssonar, utanríkisráðherra, fyrir um tveimur vikum. Bandarísk yfirvöld hafa óskað eftir því að fá Fischer framseldan til Bandaríkjanna en Japanar segja mögulegt að honum verði í staðinn vísað úr landi og sendur hingað. Venjan er hinsvegar sú að ef mönnum er vísað úr landi, þá er þeim vísað til þess lands sem þeir hafa ríkisfang í, en sem kunnugt er hefur Fischer afsalað sér bandarískum ríkisborgararétti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×