Innlent

Dó vegna afleiðinga höggs

Allt að sex vikna gæsluvarðhalds verður krafist í dag yfir banamanni Ragnars Björnssonar, sem lést eftir högg sem hann hlaut á krá í Mosfellsbæ um helgina. Bráðabirgða niðurstaða krufningar liggur fyrir. Samkvæmt henni má rekja lát Ragnars til hnefahöggs sem hann fékk á vinstri vanga. Afleiðingar þess höggs drógu hann til dauða. Maðurinn sem er hálfþrítugur var handtekinn skömmu eftir verknaðinn sem var framinn aðfararnótt sunnudags. Samkvæmt lýsingu vitna hafði glas brotnað í anddyri veitingastaðarins Ásláks og var Ragnar að gæta þess að aðrir gestir stigu ekki á glerbrotin, þegar hinn grunaði, sem var á leið út, greiddi honum höfuðhögg. Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald á sunnudagskvöld og rennur það út í dag. Lögreglan í Reykjavík ætlar eftir hádegið að fara fram á að gæsluvarðhaldið verði framlengt um sex vikur. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar er það á grundvelli almannahagsmuna og þeirrar refsingar sem liggur við ætluðu broti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×