Innlent

Vaxandi hópur með jólakvíða

EA-samtökin halda sinn árlega fund um jólakvíða í Hallgrímskirkju á morgun en vaxandi hópur berst við mikinn kvíða fyrir hátíðarnar. EA samtökin, eða Emotions Anonymous starfa eftir sömu hugmyndafræði og AA samtökin. Unnið er eftir tólf spora kerfi en í stað áfengis er það andleg vanlíðan sem félagar í EA kljást við. Samtökin funda í hverri viku í Reykjavík en ástæða þótti til að halda opinn fund í aðdraganda jólanna. Kristbjörg Árnadóttir, talsmaður félagsins, segir hátíðarnar mörgum erfiðar og ýmislegt komi til, eins og hjónaskilnaðir, sjúkdómar og ekki síst fjárhagsörðugleikar. Hún segir þá hugmynd hafa myndast að allir þurfi að eyða mjög miklu um jólin og því séu jólin erfiður tími fyrir þá sem eiga minnst. Fundurinn, sem haldinn verður í Hallgrímskirkju klukkan fjögur á morgun er öllum opinn og að sjálfsögðu verður nafnleyndar gætt. Fólki gefst þar kostur á að ræða um eigin tilfinnignar eða hvað eina sem því liggur á hjarta. Kristbjörg segir að fundurinn verði öðruvísi en venjulega að því leyti að fólki verði leyft að tjá sig um það sem það vill á þessum fundi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×