Innlent

Fá nú borgað fyrir egg

Konur geta selt egg sín til tæknifrjóvgunarstofunnar Art Medica, vegna skorts á eggjum. Slíkt hefur ekki áður tíðkast hér landi. Þrátt fyrir að kallað hafi verið eftir gjafaeggjum hefur það litlu skilað hingað til. Um 15 tæknifrjóvganir eru framkvæmdar árlega en talið er að þörfin sé tvöfalt meiri. Að sögn Guðmundar Arasonar, kvensjúkdómalæknis hjá einkareknu tæknifrjóvgunarstofunni Art Medica, hefur ekki tíðkast að konum sé greitt fyrir egg. Hann segir þó nauðsynlegt að grípa þess úrræðis, enda skipti það miklu máli fyrir pör sem annars geta ekki eignast börn. Þetta geti vonandi hjálpað einhverjum, enda virðist ekki hægt að fá egg sjálfkrafa. Guðmundur vill ekki gefa upp hversu mikið konurnar fá greitt fyrir eggin, segir það einkamál milli þeirra og Art Medica sem hefur milligöngu um greiðsluna. Hann tekur þó fram að um hóflega upphæð sé að ræða og fasta. Það eigi meðal annars að koma í veg fyrir að hægt sé að stilla barnlausu fólki upp við vegg og krefja það um háar upphæðir í stað eggs. Hann segir allar heilsuhraustar konur á aldrinum 25 til 35 ára koma til greina sem eggjagjafa og tiltölulega einfalt sé að nema eggin á brott. Þeir sem falist eftir eggjum geti að vissu leyti valið á milli eggjagjafa, en læknarnir meti það þó hvaða egg henti hverjum og einum. Guðmundur segir að eggjagjafa sé ekki skylt að gefa upp upplýsingar um sig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×