Innlent

Hóta að krefjast skaðabóta

Skeljungur hótar Kópavogsbæ að krefjast skaðabóta ef bærinn heimilar Atlantsolíu að reisa bensínstöð í grennd við bensínstöð Skeljungs við Dalbraut. Framkvæmdastjóri Atlantsolíu segir þetta vera samkeppnislegt skemmdarverk. Í bréfi Skeljungs til bæjarskipulags Kópavogs segir að ef Atlantsolía fai að reisa bensínstöðina, muni eldsneytissala Skeljungs minnka. Tjón Skeljungs yrði líka fólgið í minni framtíðartekjum og lækkuðu verði fasteignar Skeljungs. Þá er nýja stöðin talin brjóta í bága við brunavarnareglur og þá óttast Skeljungur aukna slysahættu fyrir gangandi og akandi vegfarendur vegna stóraukinnar umferðar um svæðið vegna nýju stöðvarinnar. Að þessu athuguðu telur Skeljungur alveg ljóst að ef Atlantsolía fengi að reisa stöðina, eigi Skeljungur skaðabótakröfu á hendur Kópoavogsbæ og krefst þess að lokum að deiluskipulagi verði ekki breytt þannig að Atlantsolía geti ekki byggt stöðina. Skaðabótakrafan kemur stjórnendum Atlantsolíu í opna skjöldu. Geir Sæmundsson, framkvæmdastjóri Atlantsolíu, segist líta á þetta sem samkeppnislegt skemmdarverk, sem eingöngu sé framkvæmt til þess að tefja framgang málsins. Það sé ljóst að almenningur vilji geta valið um eitthvað annað en gömlu olíufélögin og það sé skýlaus réttur fólks. Hann segir það með ólíkindum að hræðast dóm markaðsins, en það sé auljóslega það sem málið snúist um. Geir segist að sjálfsögðu hafa áhyggjur af því að þessi hótun tefji fyrir Atlantsolíu, en vonast til þess að Kópavogsbær láti hótunina ekki hafa áhrif á það að almenningur fái val í Kópavogi sem annars staðar. Undir bréf Skeljugns stil Skipulags Kópavogs ritar Ólafur Jónsson, sem ítrekað er nefndur í skýrslu samkepnisráðs um ólöglegt samráð olíufélaganna og þar kemur meðal annars fram að hann tók þátt í samráði olíufélaganna um olíuverð til Álversins í Straumsvík.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×