Innlent

Misnotaði systurdóttur sína

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær rúmlega þrítugan karlmann í þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir kynferðisbrot gegn systurdóttur sinni. Stúlkan var aðeins níu ára gömul þegar maðurinn braut fyrst gegn henni, en brotin áttu sér stað á árunum 1998 til 2002. Maðurinn var ákærður fyrir að hafa snert bak stúlkunnar með getnaðarlim sínum og fyrir að hafa í allt að fjögur skipti sýnt henni klámmyndbönd. Maðurinn játaði þá háttsemi sem hann var sakaður um og við ákvörðun refsingar var litið til þess, auk þess að hann hefði aldrei áður brotið af sér. Héraðsdómur taldi að þrátt fyrir nokkra þroskahömlun og félagslega slaka stöðu, hefði ákærði, í skjóli aldurs síns og frændsemi, notið ákveðinnar virðingar og trausts hjá stúlkunni, sem hann misnotaði með háttsemi sinni. Einnig var litið til þess að maðurinn væri móðurbróður stúlkunnar og hefði misnotað freklega fjölskyldu- og trúnaðartengsl sín við hana. Þá yki það miska hennar enn frekar að hún tengdist honum tilfinningaböndum. Hæfileg refsing var ákveðin þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, og var manninum enn fremur gert að greiða stúlkunni 200 þúsund krónur í miskabætur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×