Innlent

Láta nótaskipin um veiðina

Sjómenn á þremur stórum fjölveiði- og fullvinnsluskipum, sem eru á síldarmiðunum fyrir austan land, eru hættir að hafa fyrir því að veiða sjálfir. Nú láta þeir nótaskipin um það og dæla svo aflanum úr þeim yfir í stóru skipin til fullvinnslu. Fjölveiðiskipin þrjú eru Samherjaskipin Baldvin Þorstiensson EA og Vilhelm Þorsteinssokn EA og svo Hákon ÞH. Nótaskip Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, meðal annars Beitir NK, hafa landað í Samehrjaskipin og nótaskipið Áskell landar í Hákon ÞH. Það er aðeins Guðmundur VE sem veiðir sjálfur til vinnslu. Stóru skipin eru því ekkert annað en fljótandi fiskiðjuver, þar sem síldin er flökuð og fryst um borð. Veiðarnar eru nú á Papagrunni, austur af Djúpavogi, en þar mega stóru skipin ekki veiða með flottrolli. Þau kaupa því aflann af nótaskipunum og dæla honum beint upp úr veiðarfærunum ef veður er gott á miðunum, en annars fara nótaskipin með aflann inn á lygna firði, þangað sem stóru skipin elta þau og dæla svo aflanum úr þeim. Viðskiptin eru eitthvað á þá leið að nótaskipin veiða úr kvótum vinnsluskipanna, en fá kvóta aukreisis eða beinar greiðslur fyrir viðvikið. Þetta er auðvelt þegar eignatengsl eru gagnvkæm eins og hjá Síldarvinnslunni og Samherja. Annars ganga síldveiðarnar vel og er þetta langbesta haustvertíðin í mörg ár. Mörg skip eru nú búin með kvóta sína og fækkar skipunum dag frá degi á miðunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×