Innlent

Vilja sambærileg laun og kennarar

Fulltrúar leikskólakennara og launanefndar sveitarfélaganna verða boðaðir til fundar hjá Ríkssáttasemjara í dag, að sögn Ásmundar Stefánssonar. Upp úr viðræðum slitnaði á föstudag. Ásmundur segir að tilkynnt verði um næstu skref í viðræðunum eftir þann fund. Björg Bjarnadóttir, formaður Félags leikskólakennara, segir mikið bera á milli. "Það er fyrst og fremst launakrafan, sem við vorum að skoða. Þar vantar töluvert upp á." Leikskólakennarar vilja miða laun sín við grunnskólakennara. "Það er okkar hugmynd að nokkrir hópar leikskólakennara nálgist nokkuð vel laun grunnskólakennara," segir Karl Björnsson, sem leiðir viðræðurnar fyrir hönd launanefndar sveitarfélaganna. Sem dæmi nefnir hann að laun deildarstjóra í leikskólum verði áþekk launum umsjónarkennara (1) í grunnskólum. Björg segir starf umsjónarkennara í grunnskólum vera það sem gengið hafi verið út frá í viðræðunum, en svolítið beri á milli hvað það starfsheiti varðar. Grunnlaun umsjónarkennara í grunnskólum, undir þrítugu eru rúmlega 173.000 krónur. Þá er ekki tekið tillit til greiðslu úr launapotti eða álags vegna fjölda nemenda. Leikskólakennarar hafa ekki kosið um verkfallsboðun og ekki hefur verið ákveðið hvort það verði gert.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×