Innlent

Viðskiptabankar vísa á skattaskjól

Mörg dæmi eru um það hér á landi að stofnuð séu fyrirtæki í erlendum skattaparadísum til að koma tekjum einstaklinga og fyrirtækja undan skatti hér á landi. Í úttekt á umfangi skattsvika, sem nefnd á vegum Alþingis gerði, kemur í ljós að íslenskir bankar hafi liðsinnt félögum og einstaklingum í viðskiptum við lönd með vafasamar skattareglur. Skúli Eggert Þórðarsson, skattrannsóknarstjóri ríkisins, sem sat í nefndinni, segir að undanskot sem þessi séu helsta áhyggjuefni skattayfirvalda um þessar mundir. Þessi þróun hófst með auknum fjármálaviðskiptum milli landa í kjölfar aukins fjármálafrelsis. Nefndin áætlar að ríki og sveitarfélög hafi tapað um þrjátíu milljörðum króna á síðasta ári vegna skattsvika. Þessi upphæð er um 1,5 til 8,5 prósent af heildartekjum hins opinbera. Undanskot þar sem fé er flutt úr landi nema um fimmtán til tuttugu prósentum af öllum skattsvikum, að mati nefndarinnar. Í skýrslunni segir að það virðist þykja sjálfsagt að fjármálaráðgjafar veiti aðstoð sem beinlínis miði að því að komast undan eðlilegri skattlagningu. Ráðgjafar og jafnvel fjármálastofnanir sérhæfi sig í að ráðleggja mönnum hvernig vista eigi fé utan seilingar skattayfirvalda. Þess séu dæmi að slík starfsemi sé auglýst. Þá segir í skýrslunni að dæmi séu um skipulegt skattamisferli þar sem stjórnendur stórfyrirtækja hafi sett á svið viðskipti í þeim tilgangi einum að komast undan skattgreiðslum. Skúli Eggert Þórðarson skattrannsóknarstjóri segir að nefndin hafi lagt fram fjölmargar tillögur til úrbóta, meðal annars að bankastofnunum verði gert skylt að gefa upplýsingar um fjármálaflutninga til skattayfirvalda. Einnig þurfi að endurskoða hvernig koma megi skattsvikamálum fyrir dómstóla en nú lýkur flestum skattabrotum í kyrrþey. Geir H. Haarde fjármálaráðherra segir að það hafi verið stefna stjórnvalda að opna fjármálaheiminn gagnvart útlöndum. En með því hafi hugmyndin ekki verið sú að færa mönnum nýjar leiðir til þess að koma tekjum undan skatti. "Okkar verkefni er að reyna að koma í veg fyrir þetta," segir Geir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×