Innlent

Framsókn fengi engan mann kjörinn

Framsóknarflokkurinn fengi engan mann kjörinn ef flokkurinn biði fram einn og sér í borgarstjórnarkosningum, samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Sjálfstæðismenn fengju sex menn kjörna eins og þeir hafa nú. Oddviti Framsóknar í borginni segir könnunina endurspegla fylgisleysi Sjálfstæðismanna öðru fremur. Framsóknarflokkurinn fengi aðeins 4,4 prósent atkvæða og engan mann kjörinn ef flokkarnir sem standa að Reykjavíkurlistanum biðu fram hver í sínu lagi. Frjálslyndir kæmu hinsvegar manni að og mælast því með meira fylgi en Framsóknarflokkurinnn í borginni. Munurinn er þó innan skekkjumarka. Vinstri grænir myndu fá 18% atkvæða og þrjá borgarfulltrúa og Samfylkingin 32% og fimm borgarfulltrúa. Sjálfstæðisflokkurinn, sem lét framkvæma könnunina á tímabilinu 10. til 29. nóvember, þegar styrinn í kringum borgarstjóraskiptin stóð sem hæst, fengi hinsvegar sex borgarfulltrúa líkt og hann hefur í dag. Alfreð Þorsteinsson segir að Framsóknarflokkurinn komi jafnan illa út úr skoðanakönnunum en vel út úr kosningum. Það hafi sýnt sig fyrir síðustu Alþingiskosningar á fylgi í Reykjavík. Hann segist sannfærður um að ef Framsóknarflokkurinn biði fram stakur myndi hann fá tvo menn inn og á milli 10-15% fylgi. Það sé hins vegar athyglisvert að Sjálfstæðisflokknum takist ekki komast mikið yfir 40%. Alfreð segir að Framsóknarflokkurinn eigi vel smurða kosningavél sem fari í gang ef flokkurinn ákveði að bjóða fram sérstaklega. Hann segist ekki geta svarað því af hverju Framsóknarflokkurinn komi illa út á milli kosninga. Alfreð segist ekki eiga von á því að þetta ýti undir þá skoðun framsóknarmanna að flokkurinn bjóði fram sér. Það verði að skoða þegar líður fram á næsta ár hvort R-listinn heldur áfram starfi sínu og það sé alveg óháð þessari könnun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×