Innlent

Tjónið tugir milljóna

Tugmilljóna tjón varð í bruna í verslun Nóatúns, í JL-húsinu, síðastliðna nótt. Allt sem í versluninni var er ónýtt, vörur, raftæki og innréttingar. Eldsins varð vart rétt fyrir klukkan eitt, í nótt, og var slökkviliðið komið á vettvang sex mínútum síðar. Líkur benda til þess að eldurinn hafi verið búinn að krauma lengi, því rétt í þann mund er slökkviliðið bar að, brast rúða í vesturgafli hússins og mikið eldhaf braust út. Allt tiltækt lið slökkviliðsins var sent á vettvang og aukavakt kölluð út. Greiðlega gekk að slökkva eldinn og var því lokið á um þrem klukkustundum. Ljóst er að tjónið er mikið, og aðkoman var ekki falleg þegar Kristinn Skúlason markaðsstjóri Nóatúns kom á staðinn. Hann segir að securitas hafi hringt um klukkan korter í eitt og þá hafi verið eldglæringar út um glugggann og mikill eldur og reykur. Kristinn sagði að allt sem væri innan dyra væri ónýtt, og ekkert annað að gera en moka því út, bæði vörum og innréttingum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×