Innlent

Vill að Mörður læri mannasiði

Gunnar I. Birgisson formaður menntamálanefndar vill að Mörður Árnason alþingismaður sæki námskeið í mannasiðum. Hann hefur kvartað við forseta Alþingis undan dónaskap þingmannsins við gesti nefndarinnar. Mörður segist ekki kannast við að hafa verið dónalegur. Hann vill að Gunnar Birgisson sæki námskeið í lýðræði. Mörður Árnason þingmaður Samfylkingarinnar fékk ákúrur hjá formanni Menntamálanefndar í morgun fyrir dónaskap. Gunnar I. Birgisson formaður nefndarinnar sagði í ræðustól Alþingis að fulltrúar Samfylkingarinnar í menntamálanefnd hefðu sýnt rektorum ríkisháskólanna dónaskap þegar þeir voru gestir nefndarinnar í fyrradag. Þar hefði Mörður Árnason verið verstur og þinginu til skammar. Gunnar sagði að á fundi í morgun hafi hann sagt við Mörð að ef ókurteisin myndi endurtaka sig myndi hann slíta fundi. Hann sagðist hafa rætt málið við forseta Alþingis og ætti eftir að ræða það við formann Samfylkingar. Það gengi einfaldlega ekki að menn sýndu slíkan ruddaskap. Það væri lágmarkskrafa að menn kynnu almenna mannasiði ef þeir settust á Alþingi og hann gæti beitt sér fyrir því að Mörður færi á námskeið í mannasiðum. Mörður svaraði og sagði að um leið og hann færi á umrætt námskeið biðist hann til þess að fjármnagna námskeið í lýðræði fyrir Gunnar, sem hann þyrfti á að halda ef hann ætlaði að halda áfram í félagsstörfum og stjórnmálum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×