Innlent

Vinsælt gigtarlyf lífshættulegt

Talið er að hundrað þúsund Bandaríkjamenn hafi látist af völdum gigtarlyfsins Vioxx sem samsvarar því að hundrað Íslendingar myndu deyja vegna lyfjatökunnar. Lyfið hefur verið tekið af markaði. Vioxx var kynnt sem kraftaverkalyf þegar það kom fyrst fram á sjónarsviðið. Rannsóknir benda til þess að allt að hundrað þúsund manns kunni að hafa dáið vegna notkunar þess. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem sýndi að þeir sem tóku Vioxx í átján mánuði voru tvöfalt líklegri til að fá hjartaáfall eða heilblóðfall en aðrir. Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir hefur það eftir aðstoðarforstjóra bandarísku lyfjastofnunarinnar að um hundrað þúsund Bandaríkjamenn hafi látist af völdum gigtarlyfsins. Matthías segir lækna kannski stundum taka of gagnrýnislaust við nýjum lyfjum. Í þessu tilviki var upphaflega talið að Vioxx virkaði betur á gigt en eldri lyfin en þegar á leið kom í ljós að þau höfðu svipaða verkun. Hins vegar voru þau skárri varðandi aukaverkun í maga. Vioxx var tekið af markaði á Íslandi í október og greint frá því að hægt væri að skipta því út í apóteki fyrir annað lyf. Það var mjög mikið notað hér á landi, mest við liða- og slitgigt en einnig við bólgu og verkjum í stoðkerfinu að sögn Matthíasar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×