Erlent

Fátækt og stríð hjá milljarð barna

Annað hvert barn í heiminum þjáist af fátækt, stríðsátökum eða alnæmisfaraldrinum að því er fram kemur í ársskýrslu Barnahjálpar sameinuðu þjóðanna. Þetta þýðir að meira en milljarður barna á um sárt að binda. "Þegar helmingur barna heimsins vex úr grasi vannærður og heilsutæpur, þegar skólar verða skotmörk og heilu þorpin tæmast af völdum alnæmis höfum við svikist um að efna loforðið við æskuna," sagði Carol Bellamy, framkvæmdastjóri Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Bellamy gagnrýndi ríki heims fyrir að uppfylla ekki þau réttindi barna sem kveðið er á um í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 1989. Hún sagði að þetta væri að hluta til vegna þess að stjórnvöld hefðu brugðist í efnahagsumbótum og því að bæta stöðu mannréttindamála en fleira kæmi þó til. "Of margar stjórnir taka meðvitað ákvarðanir sem skaða börn," sagði hún og vísaði þar meðal annars til stríðsreksturs. Helmingar þeirra 3,6 milljóna einstaklinga sem hafa fallið í stríðsátökum hafa verið á barnsaldri. Að auki hafa sex milljónir barna orðið fyrir varanlegum líkamlegum skaða. Það er ekki aðeins í vanþróuðum löndum og þróunarlöndum sem börn stríða við erfiðleika. Fátækt fer vaxandi í ellefu af þeim fimmtán iðnvæddu ríkjum sem greinarhöfundar höfðu upplýsingar um. Þar hefur hlutfall barna sem elst upp í fátækt farið hækkandi. 22 prósent Bandarískra barna búa við fátækt og 16,6 prósent í Póllandi. Ríki heims settu sér það markmið með samþykkt þúsaldaráætlunar Sameinuðu þjóðanna að draga úr dauðsföllum barna undir fimm ára aldri um tvo þriðju frá 1990 til 2015. Í nýju skýrslu Barnahjálparinnar er komist að þeirri niðurstöðu að ríkin sunnan Sahara í Afríku og lýðveldi fyrrum Sovétríkjanna nái þessu markmiði ekki. Í dag látast 29 þúsund börn daglega, flest af völdum viðráðanlegra sjúkdóma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×