Sport

KR tók tilboði Brann

Norska úrvalsdeildarliðið Brann og KR hafa komist að samkomulagi um kaupverð á varnarmanninum sterka Kristjáni Erni Sigurðssyni eftir snarpa samningalotu sem hófst í gærmorgun þegar Brann gerði KR tilboð í Kristján Örn. Sigurður Helgason, framkvæmdastjóri KR Sports, staðfesti í samtali við Fréttablaðið seint í gærkvöld að félögin hefðu komist að samkomulagi en ítrekaði þó að Kristján Örn ætti enn eftir að ná samkomulagi við norska félagið og því væri ekkert öruggt. Kristján Örn á eitt ár eftir af samningi sínum við KR og hefur samkvæmt heimildum Fréttablaðsins ekki viljað skrifa undir nýjan samning við vesturbæjarliðið. Per Ove Ludvigsen, yfirmaður knattspyrnumála hjá Brann, vildi ekki tjá sig um það hvort félagið væri búið að senda KR tilboð þegar Fréttablaðið ræddi við hann í gær en sagði þó að Kristján Örn hefði staðið sig mjög vel þann tíma sem hann var til reynslu hjá félaginu og væri áhugaverður leikmaður. Kristján Örn sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að Brann væri mjög áhugavert félag. "Þeir eru bikarmeistarar og eitt af bestu liðum Noregs. Þetta er mjög spennandi dæmi en það verður að koma í ljós hvort félögin ná saman," sagði Kristján Örn. Brann varð bikarmeistari á dögunum en félagi Kristjáns í vörn íslenska landsliðsins, Ólafur Örn Bjarnason, leikur með norska félaginu. Það má því búast við að tveir íslenskir landsliðsmenn leiki í vörn Brann á komandi tímabili.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×