Sport

Keflavík vann Hópbílabikarinn

Keflavík og ÍS mættust í úrslitum Hópbílabikarsins í körfuknattleik í gær. Jafnræði var með liðunum í fyrri háflleik en Keflavík tókst að stöðva lykilleikmenn í ÍS-liðinu í seinni hálfleik og vann öruggan sigur, 76-65. Keflavík byrjaði leikinn betur og komst í 18-10. Þær pressuðu allan völlinn og töluvert óðagot einkenndi leik ÍS í fyrsta leikhluta. Þær gáfu sér ekki tíma til að stilla upp og tóku ótímabær og oft á tíðum illa staðsett skot. ÍS kom betra skipulagi á leik sinn og komst yfir í öðrum fjórðung. Það var helst fyrir tilstillan Öldu Leif Jónsdóttur sem skoraði grimmt og réðu leikmenn Keflavíkur lítið sem ekkert við hana. Keflavíkurstúlku mættu grimmar í upphafi seinni hálfleiks og skoruðu 13 stig gegn tveimur stigum ÍS. Í stað þess að hægja á leiknum, eins og ÍS hafði gert í fyrri hálfleik með ágætis árangri, keyrði liðið hraðann upp sem kann ekki góðu lukku að stýra gegn Keflvíkingum. Keflavíkurstúlkur komust mest í 13 stig mun og spiluðu oft á tíðum mjög skemmtilegan körfubolta. Þær voru vel samstilltar, lásu leikinn vel og oft mátti sjá vel útfært spil. ÍS átti ekkert svar við öflugum leik Keflvíkinga og fyrsti titill vetrarins í höfn. "Leikurinn var mjög hægur í fyrri hálfleik sem hentaði þeim mjög vel," sagði Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur. "Vörnin hjá okkur var ekki góð og þær voru að fá galopin skot. Í leikhléi töluðum við um að halda þeim fyrir framan okkur og bæta vörnina. Það gekk eftir og í raun var allt annað lið á vellinum í seinni hálfleik. Við lögðum að auki ríka áherslu á stoppa Öldu Leif, sem hafði reynst okkur erfið í fyrri hálfleik. Bára Bragadóttir hélt henni stigalausri í seinni hálfleik, spilaði frábæra vörn," sagði Sverrir Þór.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×