Sport

Sárt tap á heimavelli

Klúður á lokasekúndum Evrópuleiks Keflavíkur og danska liðsins Bakken Bears varð til þess að Danirnir mörðu sigur, 80-81, í leik sem Keflvíkingar áttu með húð og hári nánast frá upphafi til enda. Þeir náðu þó aldrei að stinga Danina af að ráði og með seiglu jöfnuðu þeir á lokamínútunum og unnu með því að skora úr tveimur vítaskotum í blálokin. Evrópudraumur Keflvíkinga beið þar með hnekki en liðið hafði unnið fyrstu tvo leiki sína gegn Madeira og franska liðinu Reims. Í stað þess að standa nú með pálmann í höndunum í riðlinum bíða þeirra nú erfiðir útileikir gegn þessum sömu félögum. Aðeins eitt stig skildi liðin að þegar lokaflaut dómarans hljómaði en Keflavík hafði leikinn í hendi sér ef undan er skilin byrjun leiksins og lokasekúndur. Í fyrri hálfleik beittu Keflvíkingar bæði pressu- og svæðisvörn gegn Dönunum og virkaði hún afar vel gagnvart helstu skorurum Bakken Bears. Tókst að loka á einn skæðasta leikmann liðsins, Chris Christoffersen, með þeim hætti að hann skoraði aðeins fjögur stig í fyrsta leikhluta. Þeim tókst þó að finna lausn á vörn Keflvíkinga innan tíðar. Þeir voru afar hreyfanlegir og staðsetningar allar góðar og eyddu engu púðri í neina óþarfa vitleysu. Í síðasta fjórðung skiptu þeir yfir í maður-á-mann vörn sem Keflvíkingar áttu í miklum erfiðleikum með að átta sig á og ekki hjálpaði að Anthony Glover tókst illa upp í þeim fjórðungi. Hitti hann illa og virtist á köflum búinn á því og reyndi lítið að keyra upp að körfunni eins og hann gerði mikið af í upphafi leiksins. Sigurinn hefði getað lent hvoru megin en lokaskot Gunnars Einarsonar eftir að Bakken komst yfir í lokin geigaði og því fóru Danirnir með sigur af hólmi. "Við leiddum þegar mestu máli skipti á lokamínútum leiksins. Þeir stóðu sig vel í að loka á Chris Christoffersen í fyrri hálfleik en í þeim seinni fundum við svör við því. Þetta er í fyrsta sinn sem við spilum í bikarkeppni Evrópu og því erum við ánægðir með að knýja fram sigur á þessum erfiða útivelli, sagði þjálfari Bakken, Geoff Kotila, að leik loknum. Leikmenn Keflavíkur voru að vonum vonsviknir og var Nick Bradford einna sárastur: "Mér líður eins og alltaf þegar ég tapa; illa. Við stóðum okkur vel bróðurpart leiksins en héldum ekki einbeitingu allan leikinn og því fór sem fór." smári@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×