Sport

Birgir Leifur komst í gegn

Kylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson komst í dag í gegnum niðurskurðinn á úrtökumótinu fyrir evrópsku mótaröðina. Birgir Leifur komst þó ekki áfram með neinum glæsibrag þar sem hringurinn í dag var hans langversti af þeim fjórum sem leiknir hafa verið. Birgir Leifur lék á 80 höggum, eða 8 yfir pari og er 5 yfir í heildina, í 26.- 32. sæti. Birgir Leifur hafði leikið mjög vel á mótinu fyrir hringinn í dag og var þremur höggum undir pari. Segja má því að hann hafi verið næsta öruggur með sæti á meðal þeirra 75 efstu og komast þannig í gegnum niðurskurðinn. Spilamennskan í dag var lengst af í jafnvægi og var Birgir Leifur á pari eftir sex fyrstu holurnar en þá tók við herfilegur kafli sem byrjað með tvöföldum skolla á sjöundu holu. Næstu fjórar holurnar fór Birgir Leifur á samtals 5 höggum yfir pari. Nú eru því aðeins 75 kylfingar eftir og 35 þeirra komast á evrópsku mótaröðina. Ljóst er því að Birgir Leifur verður að spila vel á morgun og hinn, þegar síðustu tveir hringirnir verða leiknir, til þess að komast áfram en hann er sem stendur í 26. - 32. sæti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×