Sport

Eiður og Robben hetjur Chelsea

Varamennirnir Eiður Smári Guðjohnsen og Arjen Robben voru hetjur Chelsea í leik liðsins gegn Newcastle í enska deildarbikarnum í kvöld. Þeir skoruðu sitt markið hvor í framlengingu og tryggðu Chelsea þar með 2-0 sigur og sæti í næstu umferð. Fulham vann Nottingham Forest í hinum leik kvöldins sem fór í framlengingu, 4-2 á útivelli. Leikur Chelsea og Newcastle var skemmtilegur og opinn en hvorugu liðinu tókst að skora í venjulegum leiktíma. Segja má að sóknarleikur Chelsea hafi gjörbreyst með tilkomu Arjen Robben og Eiðs Smára, en þeir félagar eru óumdeilanlega heitustu leikmenn Chelsea um þessar mundir. Eiður skoraði sitt sjötta mark í sex leikjum og Robben sitt þriðja mark í jafnmörgum leikjum, en mörkin komu á 100. og 112. mínútu og skoraði Eiður það fyrra. Bæði mörkin voru glæsileg, skot Eiðs Smára var fyrir utan teig og fór í stöng og inn en Robben tók sig til og sólaði nánast allan vinstri væng Newcastle áður en hann lagði boltann framhjá hjálplausum Shay Given í markinu. Í hinum leik kvöldins sem dróst á langinn sökum framlenginu vann Fulham nauman sigur á 1. deildar liði Nottingham Forest. Forest leiddi með marki Marlons King og allt leit út fyrir sigur þeirra en Kanadamaðurinn Tomasz Radzinski jafnaði þremur mínútum fyrir leikslok. Við tók dramatísk framlenging þar sem Radzinski og Brian McBride komu Fulham í 3-1 en Andy Reid minnkaði muninn fyrir Forest. Nafni hans Cole gulltryggði svo sigur Fulham einni mínútu fyrir lok framlengingar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×