Körfubolti

Fjögur ein­vígi klár: Jokic réði ekki við Tyrki og Þjóð­verjar ó­stöðvandi

Sindri Sverrisson skrifar
Alperen Sengun fór á kostum í Riga í kvöld þegar Tyrkir unnu Serba í mögnuðum leik.
Alperen Sengun fór á kostum í Riga í kvöld þegar Tyrkir unnu Serba í mögnuðum leik. Getty/Rokas Lukosevicius

Úrslitin eru nú ráðin í tveimur af fjórum riðlum á EM karla í körfubolta og ljóst hvaða lið úr A- og B-riðlum mætast í 16-liða úrslitum. Tyrkland og sérstaklega Þýskaland tóku riðlakeppnina með trukki.

Á morgun klárast riðlakeppnin, þegar til að mynda Ísland mætir Frakklandi í hádeginu, en það er þegar orðið ljóst hvaða lið fara upp úr A- og B-riðli og mætast í 16-liða úrslitunum.

Þýskaland hefur verið einstaklega sannfærandi á EM og það breyttist ekki í kvöld þegar heimamenn í Finnlandi fengu að finna fyrir því, í þrjátíu stiga sigri Þjóðverja, 91-61.

Þar með unnu Þjóðverjar leiki sína í riðlakeppninni að meðaltali með 32,8 stiga mun. Þeir mæta Portúgal í 16-liða úrslitum en Finnar eiga erfitt verkefni fyrir höndum gegn Nikola Jokic og félögum í serbneska landsliðinu.

Jokic var áberandi í kvöld í stórkostlegum slag við Tyrkland sem lauk á endanum með sigri Tyrkja, 95-90. Jokic skoraði 22 stig og tók níu fráköst en Alperen Sengun skyggði á hann með frammistöðu sinni fyrir Tyrkja og skoraði 28 stig, tók 13 fráköst og gaf átta stoðsendingar.

Tyrkir mæta í 16-liða úrslitum Svíum sem náðu fjórða sætinu í B-riðli þrátt fyrir tap gegn Litháen í dag, 74-71. Litháen spilar grannaslag við Lettland á laugardaginn, þegar útsláttarkeppnin hefst.

Úrslit dagsins:

A-riðill:

  • Eistland - Portúgal 65-68
  • Tékkland - Lettland 75-109
  • Tyrkland - Serbía 95-90

B-riðill:

  • Svartfjallaland - Bretland 83-89
  • Litháen - Svíþjóð 74-71
  • Finnland - Þýskaland 61-91



Fleiri fréttir

Sjá meira


×