Innlent

Botnvörpubanni afstýrt hjá SÞ

Tillaga um allsherjarbann við veiðum með botnvörpu á úthafinu náði ekki fram að ganga hjá Sameinuðu þjóðunum en Kosta Ríka hafði lagt fram tillögu um slíkt. Samningaviðræðum um hafréttar- og fiskveiðimál á vegum samtakanna er lokið. Um mikið hagsmunamál er að ræða fyrir Íslendinga þar sem botnvarpa er mikilvægasta veiðarfæri íslenska flotans. Í hana voru veidd rúm fjörutíu prósent alls aflaverðmætis sem dregið var á land á síðasta fiskveiðiári. Hópur sjávarlíffræðinga og umhverfisverndarsamtaka hafði krafist þess að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna bannaði veiðarnar algjörlega vegna áhrifa þeirra á vistkerfi sjávar. Tómas H. Heiðar, þjóðréttarfræðingur í utanríkisráðuneytinu, tók þátt fyrir Íslands hönd í viðræðum Sameinuðu þjóðanna í New York. Hann segir að Noregur hafi lagt fram tillögu sem hneig í sömu átt og tillaga Kosta Ríka. Hins vegar hafi aðeins nokkur ríki lýst yfir stuðningi við tillögurnar. Ísland, ásamt mörgum öðrum ríkjum, lagðist hins vegar ákveðið gegn þeim. "Það er á valdi viðkomandi ríkja og svæðisbundinna fiskveiðistofnana að meta hugsanlega þörf fyrir bann við notkun botnvörpu á einstökum hafsvæðum," segir Tómas. Tillagan um allsherjarbann náði þess vegna ekki fram að ganga. Tómas segir að á undanförnum árum hafi orðið vart við vaxandi viðleitni ýmissa ríkja á vettvangi Sameinuðu þjóðanna til að koma á hnattrænni stjórn fiskveiða. Ísland hafi lagst eindregið gegn öllum slíkum tilraunum og vísað í því sambandi til hafréttarsamningsins og úthafsveiðisamningsins. Ísland hafi á þessum vettvangi jafnframt beitt sér gegn hvers konar alhæfingum um stöðu fiskistofna í heiminum og um skaðsemi einstakra tegunda veiðarfæra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×