Sport

Þolinmæði Skota á þrotum

Heimildir BBC herma að dagar Berta Vogts, landsliðsþjálfara Skota, með liðið séu taldir og honum verði formlega tilkynnt um afsögn á fundi skoska knattspyrnusambandsins í vikunni. Þykir líklegt að Gordon Strachan, fyrrum þjálfara Southampton, verði boðin staðan í framhaldinu. Þolinmæði Skota hefur verið aðdáunarverð hingað til en árangur Vogts með skoska landsliðið er vægast sagt dapurt. Liðið hefur leikið 27 landsleiki undir hans stjórn, sigrað sex sinnum, gert sjö jafntefli og tapað fjórtán leikjum. Möguleikar Skota í riðli liðsins í undankeppni Heimsmeistaramótsins í Þýskalandi árið 2006 eru því sem næst úr sögunni, ekki ósvipað og hjá okkur Íslendingum. Skoska pressan hefur um hríð kallað eftir afsögn Vogts með litlum árangri en ekki þykir bæta úr skák að karlinn er með afar drjúgan samning sem gefur honum rúmar 64 milljónir króna á ári. Þarf knattspyrnusambandið því að greiða upp samning hans sem gildir fram yfir HM í Þýskalandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×