Sport

Heiðar Davíð stóð sig best

Íslendingar enduðu í 27. sæti á heimsmeistaramóti áhugamanna í golfi sem lauk um helgina á Púerto Ríco en keppni á lokadeginum á sunnudaginn var aflýst vegna óveðurs. Bandaríska sveitin sigraði mótið í þriðja sinn í röð með níu högga forskot á næsta lið. Heiðar Davíð Bragason spilaði best íslensku keppendanna á mótinu og endaði á fjórum yfir pari eftir þrjá daga. Örn Ævar Hjartarson og Sigmundur Másson stóðu honum talsvert að baki, Sigmundur með ellefu yfir pari og Örn á tíu yfir. Sigmundur sá aldrei til sólar eftir að hafa staðið sig framar vonum fyrsta daginn þegar hann kláraði hring sinn á fjórum höggum undir pari og tryggði íslenska liðinu 14. sætið eftir þann dag. Þessum árangri sínum náði Sigmundur aldrei að fylgja eftir og fór fimmtán högg yfir næstu tvo daga. Örn Ævar var að sama skapi óstöðugur. Hann hélt pari á öðrum degi en fór fimm yfir hina tvo og ljóst að verkefni Staffans Johannsson landsliðsþjálfara eru ærin fyrir næsta mót.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×