Sport

Allt undir hjá Arsenal

Fjórða umferð riðlakeppninnar í meistaradeild Evrópu hefst í kvöld með átta leikjum. Þrjú lið, Chelsea, AC Milan og Inter Milan geta tryggt sér sæti í sextán liða úrslitum en þau hafa öll unnið fyrstu þrjá leiki sína í keppninni. Í E-riðli tekur efsta lið riðilsins, PSV Eindhoven, á móti norsku meisturum Rosenborg. PSV vann leik liðanna í Þrándheimi, 2-1, en Rosenborg, sem hefur aðeins eitt stig, þarf nauðsynlega á sigri á halda til að eiga möguleika á þriðja sætinu í riðlinum, sæti sem gefur þátttökurétt í Evrópukeppni félagsliða. Arsenal fær gríska liðið Panathinaikos í heimsókn og verður hreinlega að vinna til að eiga möguleika á því að komast áfram upp úr riðlinum. Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, gerir sér grein fyrir mikilvægi leiksins en telur að sínir menn muni standast álagið. "Það eru miklar kröfur gerðar til okkar og við verðum að standa undir þeim," sagði Wenger en Arsenal hefur gert jafntefli í tveimur síðustu leikjum sínum í riðlinum. AC Milan getur tryggt sér sæti í sextán liða úrslitum en liðið sækir Barcelona heim. AC Milan vann fyrri leik liðanna, 1-0, í Mílanó en Barcelona var mun betri aðilinn í leiknum og verskuldaði eitt stig. Barcelona hefur verið að leika allra liða best í Evrópu það sem af er þessu tímabili, drifnir áfram af Brasilíumanninum Ronaldinho og þeirra vegna er voanndi að Frank Rijkaard, þjálfari liðsins, standi við stóru orðin en hann lofaði hefndum fyrir tapið í síðasta leik. Barceloan getu komist í toppsæti riðilsins með sigri. Úkraínska liðið Shakhtar Donetsk getur nánast tryggt sér þriðja sætið í F-riðli ef liðið nær að vinna Celtic í Glasgow. Celtic má muna sinn fífil fegurri, sakna sænska markahróksins Henriks Larssons mikið og eftir 3-0 tap í fyrri leik liðanna eiga þeir erfitt verk fyrir höndum. Werder Bremen ætti eiga auðvelt verkefni fyrir höndum gegn meiðslum hrjáðu liði Anderlecht í G-riðli og ekki ætti spennan að vera meiri hjá Inter Milan og Valencia ef mið er tekið af fyrri leik liðanna á Spáni þar sem Inter burstaði Valencia, 5-1. Inter getur tryggt sér sæti í sextán liða úrslitum með sigri. Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, hefur ekki beðið lægri hlut í fjórtán leikjum í meistaradeildinni og ætlar varla að fara að taka upp á þeirri vitleysu í Moskvu. Hann mætir með Eið Smára Guðjohnsen í fantaformi en sigur færir liðinu sæti í sextán liða úrslitum. Eiður Smári skoraði í fyrri leik liðanna á Stamford Bridge fyrir tveimur vikum þar sem Chelsea vann, 2-0. Porto hefur ekki verið svipur að sjón síðan Mourinho yfirgaf skútuna og liðið þaf nauðsynlega á sigri að halda gegn Paris St. Germain til að eiga möguleika á því að komast áfram. Parísarliðið vann fyrri leikinn 2-0 en Evrópumeistararnir hafa væntanlega ekki sagt sitt síðasta orð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×